Áður en hafist er handa
Áður en ráðist er í húsbyggingu þarf að huga vel að undirbúningi og gera ýmsar ráðstafanir. Að sjálfsögðu þarf að fá lóð og löggilta hönnuði að verkinu. Þá er gott að húsbyggjendur geri sér grein fyrir þörfum sínum, notkun og væntingum varðandi húsið. Í því sambandi má benda á að fjölskyldustærð, aldur barna, lífstíll og frístundir eru þættir sem geta skipt máli og þarf að huga að við hönnun hússins. Að auki hefur færst í vöxt að fólk hugi að umhverfisvænleika hússins og framkvæmdarinnar allrar, þar á meðal hvort byggingarefnið sem notast er við hafi tiltekna umhverfisvottun, t.d. Svansvottun.
Nauðsynlegt er að fá arkitekt eða hönnuð með réttindi til að hanna húsið og skila inn teikningum til viðkomandi sveitarfélags. Þá þurfa verkfræðingar sömuleiðis að skila inn teikningum að burðarþoli, lögnum, loftræstingu og raflögnum. Einnig er gott að gera ráð fyrir stórum línunum í lóðarfrágang s.s. staðsetja sólpall, gróður og frágang við lóðamörk þó lóðina sjálfa megi klára síðar. Viðkomandi byggingaryfirvöld þurfa svo að samþykkja byggingaráformin áður en hafist er handa við uppsetningu.
Á heimasíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar má nálgast lista yfir hönnuði með réttindi til að skila inn viðkomandi teikningum.
Þú getur fengið aðstoð við að finna rétta hönnuðinn og/eða verkfræðinginn fyrir þig með því að senda tölvupóst á sala@laugur.is.