Hvernig á að byggja timburhús
Það er ekkert eitt algilt svar við þeirri spurningu hvernig eigi að byggja timburhús. Margar leiðir eru í boði og veltur á hvernig húsið er hannað og öðrum forsendum. Þó er mikilvægt að hafa í huga að öll ný hús, þar á meðal timburhús, þurfa að uppfylla lög og reglugerðir ásamt því að notast við löggilta hönnuði og iðnmeistara. Að öllu jöfnu skal tryggja gæði og endingu hússins og að framkvæmdin sé rétt og örugg.
Sumarhús úr timbri
Áður fyrr voru sumarhús ekki hugsuð til notkunar nema aðeins á sumrin og voru því ekki upphituð stóran hluta af árinu. Sumarhús eins og við þekkjum þau í dag eru miklu fremur heilsárshús. Heilsárshús eru frábrugðin eldri sumarhúsum því þau eru betur einangruð og hituð allt árið um kring. Í mörgum tilfellum uppfylla heilsárshús allar kröfur byggingarreglugerðar líkt og um einbýlishús væri að ræða.
Að miklu leyti gildir flest það sama um heilsárshús og einbýlishús hvað snýr að lögum, reglugerðum og leyfisveitingum. Helst geta jarðvegsaðstæður á sumarhúsalandi verið meira krefjandi en jarðvegsaðstæður í borgum og bæjum. Því þarf oft umfangsmeiri jarðvegsframkvæmdir eða leita lausna með öðrum hætti. Þar sem sumarhús eru oft sett á steypta sökkla og botnplötu getur sú framkvæmd orðið kostnaðarsöm ef langt er niður á fast. Við sumarhús er oft byggður veglegur sólpallur og settur heitur pottur og fleiri tengdar byggingar, gott er að hugsa fyrir því öllu, ásamt undirstöðum og lögnum fyrir það á sama tíma og aðrar nauðsynlegar jarðvegsframkvæmdir standa yfir.
Áður en hafist er handa við byggingu sumarhúss þarf að fá lóð og löggilta hönnuði að verkinu líkt og á við um byggingu einbýlishúss.
Heimildir:
Edvardsen, Knut Ivar og Trond Ø. Ramstad. (2014). Handbok 5 Trehus. Oslo: SINTEF akademisk forlag.