Timburhús - Uppbygging og burðarvirki

 

Timburhús sem byggð eru í dag eru af allt öðrum gæðum en timburhús sem reist voru fyrir 100 árum. Varla er hægt að líkja efni og byggingaraðferðum saman. Í dag er dæmigert timburhús byggt upp með 2“ x 6“ (48 x 148 mm) grind í útveggjum, kraftsperrum og niðurteknu lofti eða hefðbundnum sperrum 2“ x 9“ og límtrésbita í mæni eða stálbita. Allur burðarviður er styrkleikaflokkaður og vélflokkaður skv. tilheyrandi stöðlum, C24 eða C30. Límtré er í styrkleikaflokki GL28c eða GL30c.

Þar sem burðarviður er utandyra, t.d. í þakskyggnum eða sólpöllum, er skynsamlegt að nota þrýstifúavarinn burðarvið eða þrýstifúavarið límtré. Verð á timbri í burðarvirki getur haft mikið að segja varðandi hönnun húsa. Þess vegna borgar sig að kanna ýmsa möguleika við burðarvirkið strax á hönnunarstigi.

 

Veggjagrindur eru festar saman með vinklum. Vinklarnir, líkt og aðrar festingar í timburhúsum, eru úr stáli. Vinklar (oft kallaðir BMF vinklar) og aðrar festingar eru negldar í timbrið með kambsaum 4 x 40/50 eða kambskrúfum 5 x 30/40/50. Þetta myndar afar trausta og stönduga burðargrind. .

Í nágrannalöndum okkar eru gerðar mun ríkari kröfur um einangrun enda orkuverð þar talvert hærra en hérlendis. Þar hefur því sambandið á milli veggþykkta vegna einangrunar og veggþykkta vegna burðarþols rofnað. Ekki er víst að það sé farsælt að fylgja fordæmi nágranna okkar í þeim efnum. Ef hús eru mikið einangruð getur verið erfiðara að þurrka út einhvern raka sem hefur komist inn í útveggi. Það má því færa rök fyrir því að hús skuli einangra hæfilega mikið en ekki of mikið.

Útveggjagrind er klædd með krossviði eða öðrum plötum sem eru negldar með byssusaumi á grindina að utanverðu.

Þakið er eins og áður segir oftast úr þaksperrum af styrkleikaflokki C24 eða C30 sem eru 48 mm x 223 mm eða 48 mm x 248 mm. Þaksperrur eru festar við límtrésbita með bjálkaskóm eða þakásankerum og ofan á veggjagrindur með sama hætti. Kambsaumur er einnig notaður til að festa sperrurnar við tengingar.

Á utanverða veggina er sett loftræst útveggjaklæðning, þ.e. húsið er klætt með álklæðningu eða timburklæðningu að utan og er loftunarbil á bak við hana. Í sumum tilfellum er notaður öndunardúkur ofan á plöturnar (krossvið eða aðrar plötur).

Í timburhús í dag er algengt að notaðir séu timburgluggar eða ál/trégluggar (þ.e. gluggar sem eru ál að utan en timbur að innan). Gluggarnir eru festir með vinklum, gataplötum, skrúfum eða stilliskrúfum. Á þak er algengt að notað sé bárujárn valsað úr Aluzinki og í dag er mikið farið að setja það á lektur og nota þakdúk í stað þakpappa.

Í dag eru flest timburhús byggð á steyptri plötu á þjappaðri fyllingu. Veggjagrindurnar festar á plötuna með múrboltum eða innsteyptum festingum þar sem límtréssúlur eru festar við plötu og undirstöður. Oftast er lagnagrind að innanverðu í húsum. Inniklæðningar eru flestar úr gifsplötum m.a. vegna brunavarna.

Áður en timburhús er einangrað þarf að ganga úr skugga um að timbrið sé þurrt. Sérlega mikilvægt er að gæta að þessu því annars er hætta á vandræðum, t.d. myglu. Almennt er miðað við að raki þurfi að vera lægri en 20% áður en timburhús er eingangrað. Þá þarf að vanda sérstaklega vel frágang rakavarnarlags sem er yfirleitt sett á heitu hlið veggja og þaks. Hérlendis er yfirleitt notað rakavarnarplast 0,2 – 0,25 mm þykkt úr PE plasti.

Við hjá Laugi ehf. sérhæfum okkur í vönduðum byggingarefnum fyrir timburhús. Við seljum allt efni fyrir burðarvirki timburhúsa.

Hafðu samband á sala@laugur.is fyrir nánari upplýsingar.